Skil á gögnum

GÖGN Á PDF

Prentvélar skila miklu meiri gæðum en venjulegir prentarar á vinnustöðum eða heimilum og því þarf að vanda frágang prentskjala svo útkoman verði sem best. Kynnið ykkur vel leiðbeiningar um frágang svo komast megi hjá töfum og aukakostnaði. 

Við viljum fá skrár á pdf-skráarsniði til prentunar, því það eykur öryggi og hraðar vinnslu. Nauðsynlegt er að láta allar myndir og grunna sem eiga að ná út í skurð blæða a.m.k. 3 mm út fyrir skorna stærð og allur texti og önnur prentun sem ekki má skerast af vera a.m.k. 3 mm fyrir innan skurð. Prentsíðurnar þurfa að vera miðjusettar í pdf-skjalinu og í stökum síðum en ekki opnum (spread). Pdf-skjalið má ekki innihalda aðra liti en þá sem eiga að prentast og passa skal að svart letur sé ekki í öllum litum (registration color).

Undir 100% SVARTA fleti er hæfilegt að setja t.d. 40% CYAN, 30% MAGENTA og 30% YELLOW til að fá svarta litinn vel svartan. Verkefni sem unnin eru ofan í stansateikningar (sem við getum sent þér) er best að skila á pdf formi með teikningunni inná. Gæta verður þess vel að teikningin sé í vel auðkenndum sérlit og að allar línur hennar séu með „overprinti“ og skilji ekki eftir „hvít för“ þegar henni er sleppt í útprentun. Nauðsynlegt er að fara vandlega yfir pdf-skjalið áður en það er sent til okkar. 

PSD, JPG, TIFF, EPS og PDF eru þau snið sem við mælum með, en þegar um 4 lit + aukaliti er að ræða í myndum notið þá PSD. Kerfin hjá okkur varpa RGB myndum sjálfkrafa yfir í CMYK. Athugið, að margendurtekin vistun JPG mynda rýrir gæði þeirra verulega.

300 dpi. er ákjósanleg upplausn fyrir myndir til prentunar og þó hún fari niður í 250 dpi. þá er það yfirleitt í fínu lagi. Myndir úr stafrænum myndavélum hafa komið þokkalega út þrátt fyrir lægri upplausn alveg niður í 150 dpi. Sú upplausn getur verið nothæf en við mælum ekki með því að tekin sé sú áhætta. Innskannaðar myndir eru viðkvæmari fyrir lágri upplausn.

Ef þú ert í vafa með skil á gögnum mælum við með að hafa samband við okkur.